Vonandi gefur þú þér tíma til að lesa þetta.

Tekið úr DV  

Bréfið sem Mogginn birtir ekki

Áskrifandi Morgunblaðsins mótmælir ráðningu Davíðs Oddssonar í ritstjórastól í byrjun október síðastliðins. Nú skrifar annar áskrifandi opið bréf til Davíðs.

Áskrifandi Morgunblaðsins mótmælir ráðningu Davíðs Oddssonar í ritstjórastól í byrjun október síðastliðins. Nú skrifar annar áskrifandi opið bréf til Davíðs. Heiða Helgadóttir.

Mánudagur 16. nóvember 2009 kl 11:19

Höfundur: Ritstjórn DV (ritstjorn@dv.is)

  • Ingi Gunnar Jóhannsson, höfundur bréfsins.

    Ingi Gunnar Jóhannsson, höfundur bréfsins.

  • Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins.

    Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins.

  • Fyrrverandi áskrifandi skrifaði Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins, opið bréf, sem Morgunblaðið hefur ekki birt.

    Fyrrverandi áskrifandi skrifaði Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins, opið bréf, sem Morgunblaðið hefur ekki birt.

Fyrir rúmum tveimur vikum síðan sendi Ingi Gunnar Jóhannsson, fyrrverandi áskrifandi að Morgunblaðinu, bréf til blaðsins og bað um birtingu. Bréfið hefur ekki fengist birt í Morgunblaðinu.

Eftir að hafa ítrekað erindi sitt við Morgunblaðið fór Ingi Gunnar fram á það við DV að birta bréfið. Hér með er orðið við þeirri ósk og bréfið birt í heild sinni.

Opið svarbréf til ritstjórans Davíðs Oddssonar

Í byrjun október s.l. barst mér bréf frá Morgunblaðinu, undirritað af yður, í kjölfar þess að ég sagði upp áskrift minni að blaðinu. Ástæða uppsagnar minnar á blaðinu er sú ein, að mér misbýður verulega það dómgreindarleysi eigenda Morgunblaðsins að gera yður að öðrum tveggja ritstjóra þessa hingað til ágæta blaðs.
Í bréfi yðar buðuð þér mér eins mánaðar fría áskrift að Morgunblaðinu í október til þess að leggja mat á hvernig blaðið muni þróast undir yðar ritstjórn. Jafnframt óskuðuð þér í bréfinu eftir athugasemdum mínum um störf yðar, án þess að tilgreina sérstaklega við hvaða störf er átt.
Ég tek yður á orðinu og skal nú verða við hvoru tveggja; gera yður grein fyrir áliti mínu á störfum yðar fram til þessa og lýsa jafnframt skoðun minni á þróun blaðsins nú í október.

Störf yðar
Sem forsætisráðherra nutuð þér lengi vel trausts og virðingar þjóðarinnar og höfðuð sem slíkur á yður hið “landsföðurlega” yfirbragð, sem svo mikils er metið.
En við einkavæðingu ríkisbankanna urðu yður á afdrifarík mistök. Í stað þess að dreifa eignarhaldinu eins og lofað hafði verið, handstýrðuð þér bönkunum í hendur manna, sem ekki reyndust traustsins verðir. Með því lögðuð þér því miður grunninn að þeim hörmungum sem nú hafa dunið á íslenskri þjóð, og ekki sér fyrir endann á.
Í hlutverki Seðlabankastjóra gáfuð þér bönkunum að því er virðist lausan tauminn, og gátu þeir því óhindrað stækkað, safnað óheyrilegum skuldum og belgst út án þess að þeim væru nein takmörk sett. Þér stóðuð meir að segja fyrir því að afnema bindiskylduna í útibúum íslenskra banka erlendis. Afleiðingar þessa voru vægast sagt skelfilegar, og allir landsmenn þekkja nú af biturri reynslu þá afurð einkavina yðar í Landsbankanum sem Icesave nefnist, og þér hafið sjálfir lýst sem hinu mesta skemmdarverki.

Þótt þér segist nú oftsinnis hafa varað við yfirvofandi hruni bankanna þá samþykktuð þér samt gegndarlausar lánveitingar Seðlabankans til þessara sömu banka án haldbærra veða, og sætir það furðu í ljósi hinna meintu viðvarana yðar. Beint fjárhagslegt tap þjóðarinnar af þessum sökum er talið nema allt að 300 milljörðum króna að viðbættum vöxtum. Undir yðar handleiðslu varð Seðlabanki Íslands, þjóðarbankinn sjálfur, í raun gjaldþrota. Spyrja má í þessu samhengi, hvort sá sé meiri óreiðumaður sem sólundar því fé sem hann fær að láni, eða bankastjórinn sem veitir honum lánið úr sjóðum almennings, vitandi að það fáist að öllum líkindum aldrei greitt til baka.

Misheppnuð tilraun yðar til yfirtöku á Glitni olli dóminóáhrifum og hratt af stað því skelfilega hruni, sem landsmenn standa nú frammi fyrir sem blákaldri staðreynd. Setning hryðjuverkalaga á íslenskar eigur í Bretlandi hefur þar að auki verið rakin beint til orða yðar í Kastljósi um að skuldir íslenskra "óreiðumanna" erlendis yrðu ekki greiddar, og var viðtal þetta víða erlendis túlkað sem yfirlýsing Seðlabankans um að íslenska ríkið myndi ekki standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.
Í kjölfarið hófst svo Icesave-deilan við Breta og Hollendinga, en þar getið þér ekki heldur þvegið hendur yðar af því að hafa sem Seðlabankastjóri í nóvember 2008 undirritað viljayfirlýsingu þar sem því var lofað að Íslendingar tækju ábyrgð á innlánsreikningum Landsbankans erlendis. Lyktir málsins hljóta því að hluta til að skrifast á yðar reikning.
Sem forsætisráðherra og síðar sem Seðlabankastjóri berið þér óumdeilanlega mikla ábyrgð á afdrifaríkum ákvörðunum, sem reynst hafa rangar og leitt hafa miklar hremmingar yfir íslenska þjóð. Því miður reyndust þér, þegar á hólminn var komið, alls ekki valda því bankastjórastarfi sem þér höfðuð áður úthlutað yður sjálfum.

Þróun blaðsins
Í ljósi ofangreindra stikla af starfsferli yðar eru efnistök Morgunblaðsins, eftir að þér hófuð þar störf, einkar ógeðfelld. Blaðið hefur á þessum stutta starfstíma yðar ítrekað reynt að vísa allri ábyrgð á Icesave klúðrinu yfir á núverandi ríkisstjórn, sem þó er í raun réttri einungis að sinna björgunarstörfum við erfið skilyrði. Auk þess hafa ýmsar tilraunir verið gerðar á síðum blaðsins til þess að „útskýra“ orsakir gjaldþrots Seðlabankans yður í hag, t.d. í Reykjavíkurbréfi þann 18. október.
Nýjasta útspil yðar til þróunar Morgunblaðsins, að breyta sunnudagsblaðinu í eins konar “kálf” með laugardagsblaðinu, er að mínu mati augljós tilraun til þess að gefa lesendum einu tölublaði minna á viku fyrir sama verð. Það vekur jafnframt athygli hversu blaðsíðum Morgunblaðsins hefur farið fækkandi að undanförnu. Eða stendur kannski til að lækka áskriftargjaldið vegna þessa?
Í stuttu máli er það mat mitt á þróun Morgunblaðsins á þessum fyrsta mánuði yðar í ritstjórastól að blaðið hafi í raun misst allan sinn fyrri trúverðugleika, einkum hvað varðar umfjöllun um bankahrunið og ýmis málefni sem tengjast fyrri störfum yðar. Ritskoðun af yðar hálfu gerir það einfaldlega að verkum að hvorki er lengur hægt að treysta fréttavali né efnistökum í fréttum blaðsins.
Það sjá það líklega flestir skyni bornir menn, hvílík reginfirra það er að gera yður að ritstjóra blaðs, sem ekki kemst hjá því á umbrotatímum í lífi þjóðarinnar að fjalla beint og óbeint um ofangreind störf yðar á opinberum vettvangi. Þér eruð einfaldlega engu skárri í nýjum „Moggafötum“ en keisarinn frægi í sögu H.C. Andersens, sem allir sáu að var nakinn nema hann sjálfur. „Moggafötin“ fela ekki fortíð yðar frekar en nýju fötin nekt keisarans. Er yður hér með kurteislega bent á það.

Biðjið þjóðina afsökunar
Með framgöngu yðar í opinberu starfi á undanförnum árum hafið þér því miður valdið íslenskri þjóð stórkostlegu tjóni. Þótt slíkt hafi eflaust ekki verið ætlun yðar, þá tala samt staðreyndirnar sínu máli. Hvort sem yður líkar það betur eða verr, þá eruð þér Hrunkóngur Íslands. Þann titil munið þér aldrei losna við, hversu mjög sem þér reynið að ritstýra og hagræða sannleikanum í yðar þágu á síðum fyrrum „blaðs allra landsmanna“.
Það eru gömul sannindi og ný að hrokinn gerir menn smáa en auðmýktin stóra. Væri yður sæmst að horfast í augu við þátt yðar í hinu efnahagslega hruni Íslands og biðja þjóðina afsökunar á því sem að yður snýr í auðmýkt og iðrun hjartans. Yrðuð þér þá maður að meiri. Ég er sannfærður um að amma yðar hefði ráðlagt yður hið sama, væri hún enn á lífi.

Uppsögn mín á Morgunblaðinu stendur þar til þér víkið af velli sem ritstjóri blaðsins.

Reykjavík, 30. október 2009
Ingi Gunnar Jóhannsson, fyrrverandi áskrifandi Morgunblaðsins

 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þessi pistill sýnir að skáldið hafði rétt fyrir sér þegar það sagði sem svo : að hálfsannleikur oftast er, óhrekjandi lygi.

Hér er sagan sett í slíkan búning sem hentar tilefninu: að  koma óverðskulduðu höggi á þá sem síst skyldi.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 25.11.2009 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Friðriksdóttir
Ingibjörg Friðriksdóttir
Flottust seinnipartinn.

 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Tónlist

Tónlist

Uppáhaldslögin mín


Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband