Dansinn í Hruna eða hruni

Þjóðsagan um kirkjuna í Hruna minnir á íslenska bankahrunið. Í sögunni er heilmikill boðskapur um hvað getur gerst þegar ekki er hlustað á rödd skynseminnar og vaðið áfram í villu og svima, án tillits til tilfinninga annarra og þeim lífsgildum sem kristin trú hefur kennt okkur.  Langar til að deila sögunni með ykkur og heyra síðan hvað ykkur finnst. 

Mér finnst það með ólíkindum að heyra enga auðmýkt hjá þeim sem dönsuðu þennan dans og lögðu blessun sína yfir alla áhættuna sem tekin var á kostnað almennings. Þeir (þau) halda áfram með hroka og frekju og leggja stein í götu þeirra sem eru að reyna að þrífa upp eftir þá. 

Hlustum eftir boðskapnum í gömlum þjóðsögum.  Með illu skal illt út reka og ............

 

DANSINN Í HRUNA


Einu sinni til forna var prestur í Hruna í Árnessýslu, sem mjög var gefinn fyrir skemmtanir og gleðskap. Það var ávallt vani þessa prests, þegar fólkið var komið til kirkju á jólanóttina, að hann embættaði ekki fyrri part næturinnar, heldur hafði dansferð mikla í kirkjunni með sóknarfólkinu, drykkju og spil og aðrar ósæmilegar skemmtanir langt fram á nótt. Presturinn átti gamla móður, sem Una hét; henni var mjög á móti skapi þetta athæfi sonar síns og fann oft að því við hann. En hann hirti ekkert um það og hélt teknum hætti í mörg ár. Eina jólanótt var prestur lengur að þessum dansleik en venja var; fór þá móðir hans, sem bæði var forspá og skyggn, út í kirkju og bað son sinn hætta leiknum og taka til messu. En prestur segir, að enn sé nægur tími til þess, og segir: "Einn hring enn, móðir mín." Móðir hans fór svo inn aftur úr kirkjunni. Þetta gengur í þrjár reisur, að Una fer út til sonar síns og biður hann að gá að guði og hætta heldur við svo búið en verr búið. En hann svarar ávallt hinu sama og fyrri. En þegar hún gengur fram kirkjugólfið frá syni sínum í þriðja sinn, heyrir hún, að þetta er kveðið, og nam vísuna:
"Hátt lætur í Hruna;
hirðar þangað bruna;
svo skal dansinn duna,
að drengir mega það muna.
Enn er hún Una,
og enn er hún Una."

Þegar Una kemur út úr kirkjunni, sér hún mann fyrir utan dyrnar; hún þekkti hann ekki, en illa leist henni á hann og þótti víst, að hann hefði kveðið vísuna. Unu brá mjög illa við þetta allt saman og þykist nú sjá, að hér muni komið í óefni og þetta muni vera djöfullinn sjálfur. Tekur hún þá reiðhest sonar síns og ríður í skyndi til næsta prests, biður hann koma og reyna að ráða bót á þessu vandkvæði og frelsa son sinn úr þeirri hættu, sem honum sé búin. Prestur sá fer þegar með henni og hefur með sér marga menn, því tíðafólk var ekki farið frá honum. En þegar þeir koma að Hruna, var kirkjan og kirkjugarðurinn sokkinn með fólkinu í, en þeir heyrðu ýlfur og gaul niðri í jörðinni. Enn sjást rök til þess, að hús hafi staðið uppi á Hrunanum, en svo heitir hæð ein, er bærinn dregur nafn af, sem stendur undir henni. En eftir þetta segir sagan, að kirkjan hafi verið flutt niður fyrir Hrunann, þangað sem hún er nú, enda er sagt, að aldrei hafi verið dansað síðan á jólanóttina í Hrunakirkju.

Netútgáfan - febrúar 1997


mbl.is Hefðu hrunið fyrr eða síðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Eins gott að það er ekki mikið fjör í kirkjum landsins! Gætu sokkið! Svona fyrir utan smá klapp hér og smá strokur þar.

Annars skil ég vel borðskap sögunnar. Það væri okkar hollt að hlusta á Unurnar.

Rut Sumarliðadóttir, 14.5.2009 kl. 13:11

2 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Nei, partýið er búið.  Við hefðum betur hlustað....

Ingibjörg Friðriksdóttir, 14.5.2009 kl. 13:43

3 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Er ekki rétt til getið hjá mér, Ingibjörg, að þú hafir verið á ballinu í Hruna þegar kirkjan og kirkjugarðurinn sukku til ... ja, ég veit ekki hvert?

Jóhannes Ragnarsson, 15.5.2009 kl. 12:06

4 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Júl mikið rétt.  Og þó að sumir haldi að maður eigi ekki afturkvæmt úr helvíti. þá er það ekki svo.  Hér er ég lifandi komin og mun dæma þig og fleiri, lifendur og dauða o.s.frv.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 15.5.2009 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Friðriksdóttir
Ingibjörg Friðriksdóttir
Flottust seinnipartinn.

 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Tónlist

Tónlist

Uppáhaldslögin mín


Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 1748

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband