25.7.2009 | 19:30
Og.....hvað svo?
Árið 1987 breyttust hagir mínir umtalsvert í kjölfar hjónaskilnaðar. Ég hafði lifað í vellystingum, enda skaffaði karlinn ágætlega. Ég var svo sem í ágætri vinnu, skuldlaus og átti tvær unglingsstúlkur sem sáu að mestu leyti um sig sjálfar, allavega um allt það sem ungar stúlkur sækja í, falleg föt, snyrtuvörur, skólabækur og svo allar skemmtanirnar.
Það sem gerðist var að ég áttaði mig ekki alveg á, eða neitaði að horfast í augu við breyttan efnahag, hélt áfram að spreða vinstri hægri. Því miður fyrir mig voru kreditkortin komin til að vera og hægt var að eyða án þess að maður yrði svo mikið var, svo var hægt að greiðsludreifa, þannig að undirrituð naut frelsis, keypti sér flott föt og var ein af megaskvísum bæjarins.
Nokkrir mánuðir liðu og smátt og smátt varð ég að horfast í augu við veruleikann. Ég var orðin stórskuldug, hafði ekki lengur efni á að láta sjá mig í fínu fötunum. Reikningar hlóðust upp og ég gat ekki beðið minn fyrrverandi´um pening, enda hann búinn að ná sér í aðra kerlingu og varla aflögufær.
Í þessarri stöðu sá ég að eitthvað yrði ég til bragðs að taka. Ég velti því fyrir mér að ná mér í einhvern karl sem gæti tekið við af þeim fyrrv., það voru margir álitlegir á lausu og karlmenn eru ekkert mikið að hugsa þegar þeir sjá megaskvísu á góðum aldri og ekki truflaðar af smákrökkum. Einhverjir voru í sigtinu hjá mér, en þegar betur var aðgáð, þá fannst mér frelsið svo dýrmætt að ég var ekki tilbúin til að afsala mér því, til þess eins að geta haldið áfram á sömu braut.
Ég tók mig til, fékk aukavinnu, vann í sjoppu annaðhvert kvöld og aðra hvora helgi. Hætti að kaupa mér föt, enda þurfti ég ekki á því að halda,´fór ekkert nema í vinnuna og var alveg steinhætt að kaupa annað en mat og svo WCpappír, tannkrem og splæsti í eina og eina Niveakrem dós.
Það tók mig ekki langan tíma að vinna mig út úr vandanum, þarna sló ég nokkrar flugur í einu höggi: Sýndi dætrum mínum fram á að hægt væri að hafa það skemmtilegt, án þess að kosta til þess svo miklu, spara, sýna aðgát og horfast í augu við þau vandræði, hvort sem þau eru manni sjálfum að kenna eða öðrum. Þetta var frábær tími. Ég hefði sennilega átt að skrifa bók eins og Lára Ómars, því heima hjá okkur var einskonar Cosby show alla daga og aldrei varð okkur mæðgunum kalt eða urðum svangar.
Á stuttum tíma lærði ég meira um hamingju og gleði en á næstum 40 árum. Í dag neita ég að taka þátt í leiðindum. Allir erfiðleikar eru til þess eins að leysa þá og þá gerum við bara það sem þarf. Við verðum öll að taka höndum saman og vinna okkur út úr þeim erfiðleikum sem nokkrir hafa sett okkur í. Nóg er til að fötum í landinu og ekki tókst þessum hálfvitum að gefa frá okkur hitaveiturnar, nóg er plássið því þröngt mega sáttir sitja.
Ég veit að það er ekki eins mikið um vinnu að hafa og þegar ég var að vinna alla daga og fór svo í sjoppuna á kvöldin og helgar. En, þetta er hægt. Númer 1. er að horfast í augu við staðreyndir, borga fyrir góðærið með því að sauma vel að okkur og vinna okkur út úr vandanum.
Vonandi getum við hirt eigur þessara manna (útrásarglæponana) og komið þeim í verð. Ég hef fulla trú á því að okkur muni takast það, ef við sjálf gefumst ekki upp.
ÁFRAM ÍSLAND!
Icesave: Gæti stefnt í óefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist
Tónlist
Uppáhaldslögin mín
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hef alltaf verið á því að þú værir snillingur og þú sannar það aftur og aftur. Algjörlega sammála, bara hrækja í lófana og halda áfram.
Kveðja
Gerða
Gerða Sigmarsdóttir (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 19:56
Yndisleg færla og svo Imbuleg, takk elskan.
Rut Sumarliðadóttir, 25.7.2009 kl. 23:51
'Eg ætla að fá eina pulsu með öllu nema hárum...!
Það er lítið annað að gera...hrækja í lófana og skilja budduna eftir heima...!
Sirry (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 16:30
Góð færsla.
Það gagnast engum að gefast upp. Verum dugleg að vinna, við sem höfum vinnu. Verum dugleg að skapa nýja vinnu. Og í frítímum höfum við bara gott af því að slaka á í lífsgæðakapphlaupinu og gefa okkur tíma til að upplifa í ró og næði hamingjuna í öllu sínu veldi.
En einhvern daginn þurfum við að upplifa réttlæti í því formi að útrásarrónarnir greiði það sem þeim ber.
Anna Einarsdóttir, 26.7.2009 kl. 20:32
Takk stelpur. Ég er þess fullviss Anna að við munum upplifa það réttlæti sem þú minnist á so help me God
Ingibjörg Friðriksdóttir, 27.7.2009 kl. 20:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.